SPECTACULAR

14. - 18. NOVEMBER 2018

KATRÍN GUNNARSDÓTTIR (REYKJAVÍK) - SHADES OF HISTORY

líkamlegur blekkingarleikur, rekinn áfram af hinni innri þrá dansarans að hverfa á bak við hreyfingarnar sjálfar

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Sunnudagur 19. nóvember kl 21:00 // Tjarnarbíó, Tjarnargötu 12, 101 Reykjavík // enska // 40 mínútur

Hægt er að kaupa miða hér

Shades of History birtist okkur sem óþekktur og dáleiðandi sviðsgaldur. Líkamlegur blekkingarleikur, rekinn áfram af hinni innri þrá dansarans að hverfa á bak við hreyfingarnar sjálfar.

Dansandi líkami Katrínar, með allri sinni þörf fyrir hvíld, erfiðar til þess að gera sig ósýnilegan á bakvið töfra og blekkingu listdansins. Líkami sem óskar þess að þreytast aldrei, heldur að halda endalaust áfram i óendanlegu flæðandi flæði.

Katrín sækir efnivið verksins í sitt eigið líkamsminni, sem er ásótt af liðnum danssporum. Hún bregður upp myndum af hreyfingum og andardráttum úr sögu listdansins, efni sem hún hefur fengið að láni úr verkum annara danshöfunda síðustu 15 ár og unnið inn í sín eigin verk.

Í hjarta þessa blekkingardans verður til sjálfsmynd af listdansinum sjálfum og löngun hans til að vera hafinn yfir líkamann í órofnu, ólíkamlegu flæði hreyfinga.

Shades of History var tilnefnt til Grímunnar - íslensku sviðslistaverðlaunanna 2017 í flokkunum Danshöfundur ársins, Hljóðmynd ársins og Katrín Gunnarsdóttir hlaut verðlaunin í flokknum Dansari ársins. Þá var verkið einnig tilnefnt til Menningarverðlauna DV í flokki danslistar.

www.katringunnarsdottir.com

Katrín Gunnarsdóttir lærði dans við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist með BA gráðu í kóreógrafíu frá ArtEZ listaháskólanum í Hollandi árið 2008. Hún hefur starfað við sviðslistir hér heima og erlendis í fjölda verkefna. Sem dansari hefur Katrín unnið með Sögu Sigurðardóttur, Ernu Ómarsdóttur og Kris Verdonck ásamt fleirum. Hún hefur starfað með sjálfstæðum sviðslistahópum og samið sviðshreyfingar fyrir leikhús og tónlistarmyndbönd. Katrín hefur sýnt verk sín víðsvegar í Evrópu. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar, meðal annars tilnefnd Grímunnar sem danshöfundur ársins fyrir verkin KVIKA, Macho Man og Shades of History. Katrín hlaut Grímuna sem dansari ársins 2017 fyrir sýninguna Shades of History. Hún er einnig meðlimur í sviðslistahópnum Marble Crowd. Katrín vinnur um þessar mundir að að verkinu Crescendo, sem frumsýnt verður í Tjarnarbíó í mars 2018.

-----------------

Höfundur og dansari : Katrín Gunnarsdóttir
Leikmynd og búningur : Eva Signý Berger
Ljósahönnun : Magnús Arnar Sigurðarson
Hljóð : Baldvin Magnússon
Dramatúrgísk ráðgjöf og texti : Alexander Roberts & Ásgerður G. Gunnarsdóttir
Aðstoðardanshöfundur : Védís Kjartansdóttir
Markaðsmál : Heba Eir Kjeld

Ljósmynd : Hörður Sveinsson

Stutt af: Sviðslistasjóði, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Dansverkstæðinu, ICE Hot, Dance Base Edinburgh og Reykjavík Dance Festival.