SPECTACULAR

14. - 18. NOVEMBER 2018

Frá listrænum stjórnendum: 

Athöfn og andóf

Nú sem endranær er Everybody’s Spectacular, Alþjóðleg sviðslistahátíð í Reykjavík vettvangur fyrir innlent og erlent sviðslistafólk sem vinnur að því, ásamt áhorfendum, að finna annarskonar sjónarhorn á tilveruna, tendra neista og opna gáttir fyrir þær fjölbreytilegu tilfinningar, kenndir og hugmyndir sem flæða fram í manneskjunni.

Dagskráin í ár er sett saman með þá hugmynd að vopni að athafnir sem fela í sér andóf geti allar haft meiriháttar áhrif á umheiminn. Sýningarnar, umræðurnar, vinnustofurnar og partíin; allt tekur þetta mið af fjölbreytilegri beitingu líkamans í þeirri hringiðu sem samtíminn er. Við notum líkamann og tungumálið til þess að leita uppi ný sjónarhorn og umbreyta veruleikanum. Það kemur berlega í ljós í hvert sinn sem við rísum upp til að standa vörð um réttlætið, í hvert sinn sem við tölum út og höfum hátt um áreitni og ofbeldi og í hvert sinn sem við ákveðum t.a.m. að krjúpa á kné í mótmælaskyni; í öllum tilvikum erum við að senda skilaboð sem geta valdið ótrúlegri hugarfarsbreytingu. Og listin er hinn sjálfsagði hljómbotn fyrir raddir sem ekki hafa mátt heyrast fram til þessa.

Listin beinir sviðsljósinu að því sem er ósýnilegt eða ógreinilegt og geymt er í hugarfylgsnum hverrar manneskju, listin er birtingarmynd vonarinnar sem við berum í brjósti um jákvæðar  breytingar og þróun samfélagsins. Við vitum að í þeim efnum eru oftast stigin fá og lítil skref í einu, en það skiptir máli að skrefin séu tekin og að við stöndum ekki bara í stað.

Hátíðin er haldin í nafni slíkra athafna; skrefa sem virðast lítil en eru vísbendingar um það sem er í vændum – og er annað og meira.

Ásgerður G. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Skúladóttir, Alexander Roberts, Bjarni Jónsson