SPECTACULAR

14. - 18. NOVEMBER 2018

Íslenski dansflokkurinn kynnir: Dísablót, verk eftir Steinunni Ketilsdóttur (IS), Ernu Ómarsdóttur (IS) & Valdimar Jóhannsson (IS)


HVENÆR // HVAR// TUNGUMÁL // LENGD

Laugardag 17. nóvember (frumsýning) @ 18:00 og sunnudag 18.nóvember @ 20:00 // Borgarleikhúsið, Listabraut 3, 107 Reykjavík // Án orða // 120 mínútur

Nælið ykkur í miða hér

800x500 tix dísablót.jpg

STEINUNN KETILSDÓTTIR: Verk nr. 1

Hvernig verður dans verk?

Hvers megum við vænta?

Á hverju eigum við ekki von?

Hvers megum við vænta af Verki nr. 1, hinu fyrsta í samnefndri röð danshöfundarins Steinunnar Ketilsdóttur? Hér er á ferðinni spennandi atlaga Steinunnar að því að kynna í fyrsta sinn ýmsar áhugaverðar uppgötvanir sínar í sýningu fyrir hóp dansara.

Verkið sprettur upp af rannsóknarverkefni hennar, EXPRESSIONS: the power and politics of expectations in dance sem Steinunn hefur leitt undanfarin tvö ár í samstarfi við alþjóðlega lista- og fræðimenn, en á meðan verkefnið varir birtast bráðabirgðaniðurstöður þess með fjölbreyttum hætti; í formi gjörninga, kynninga og útgáfustarfsemi. Verkefninu er ætlað að ýta undir nýja þekkingaröflun á sviði danslistarinnar með því að kanna möguleika listformsins utan venjubundinna birtingarmynda þess, búa til áður ókunn rými og teygja anga sína um hverja þá króka og kima þar sem fjalla má á gagnrýninn hátt um fyrirframgefnar hugmyndir okkar tengdum listgreininni. EXPRESSIONS veitir þannig rými fyrir rannsóknir og greiningu, rými sem krefst djúphygli og er vegvísir til framtíðar í danslistinni.

Steinunn Ketilsdóttir, danshöfundur, er búsett í Reykjavík. Hún lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002, BA-námi í dansi frá Hunter College í New York árið 2005 og árið 2016 hlaut hún meistaragráðu frá sviðshöfundabraut NYU Tisch School of Arts. Steinunn á að baki alþjóðlegan feril og hefur – ýmist ein síns liðs eða í samstarfi við aðra listamenn – samið fjölda dansverka sem hafa verið sýnd beggja vegna Atlantshafsins. Steinunn hefur verið tilnefnd til Íslensku leiklistarverðlaunanna fyrir verk sín og hlaut árið 2010 Grímuna í tveimur flokkum, sem höfundur og dansari í verkinu Ofurhetja.

Á sviði: Dansarar Íslenska dansflokksins

Danshöfundur: Steinunn Ketilsdóttir

Tónlist: Áskell Harðarson

Búningar: Alexía Rós Gylfadóttir

Ljósahönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson

ERNA ÓMARSDÓTTIR, VALDIMAR JÓHANNSSON & SIGUR RÓS: Pottþétt myrkur

Manneskja, vertu berskjölduð!

Faðmaðu skugga þinn og máttleysi, faðmaðu myrkrið!

Þegnunum í ríki hinna hungruðu drauga er lýst sem skepnum með veikburða háls, lítinn munn, visna útlimi og stóra, uppblásna belgi. Þetta er lén fíkninnar og þar fer fram eilíf leit að tilbúnum lausnum sem milda eiga óendanlega löngun í létti eða fullnægju. En draugarnir geta ekki satt hungur sitt, því þeir vita ekki á hvers konar næringu þeir þurfa að halda. Þeir glíma því við ærandi tómleika og eru dæmdir til að reika ráðalausir um ríki sitt um alla tíð.

Pottþétt myrkur eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson er lokakaflinn í fjórleik þeirra um myrkrið og berskjöldun mannslíkamans. Fyrsta verkið í röðinni; Myrkrið faðmar, var frumsýnt á listahátíðinni Norður og niður á vetrarsólstöðum 2017.  Myndbands-innsetningin Örævi sem unnin var í samvinnu við Pierre-Alain Giraud var varpað á olíutankana við Marshall-húsið við opnun Vetrarhátíðar í Reykjavík í febrúar 2018 og þriðji hlutinn, Brot úr myrkri, var sýndur á Listahátíð í Reykjavík 2018, í porti Listasafns Reykjavíkur –Hafnarhúss.

Öll verkin eru flutt við nýja tónlist Sigur Rósar og Valdimars Jóhannssonar undir listrænni stjórn Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar og í samstarfi við dansara Íslenska dansflokksins. 

Á sviði: Dansarar Íslenska dansflokksins

Listrænir stjórnendur: Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson

Kóreógrafía: Erna Ómarsdóttir í samstarfi við dansara Íd

Tónlist: Sigur Rós og Valdimar Jóhannsson

Búningar: Rebekka Jónsdóttir

Ljósahönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson