SPECTACULAR

14. - 18. NOVEMBER 2018

ANT HAMPTON (UK) & CHRISTOPHE MEIERHANS  (DE) - THE THING

leiki eins og maður sé orðinn algjörlega frjáls

thing_wedding.jpg

HVENÆR // HVAR // TUNGUMÁL // LENGD

Laugardagur 2. desember og Sunnudagur 3. desember 13:00 - 17:00, laugardagur 9. desember og sunnudagur 10. desember 13:00 - 17:00 // Sölvhóll, Húsnæði sviðslistadeildar LHÍ, Sölvhólsgata 13, 101 Reykjavík // enska //  4 tímar hvert skipti

Til eru óskráðar reglur og hömlur sem greina á milli þess sem telst gerlegt og ógerlegt. Það á við um einstaklinginn og samskipti hans við aðra. En hvað gerist þegar þú stendur mögulega frammi fyrir því að þurfa að ganga á svig við slíkar reglur, jafnvel brjóta þær? The THING – er allt í senn; gjörningur, vinnustofa og ferðalag. Þátttakendur fara í gegnum ferli sem skiptist í fjóra hluta og er hver um sig klukkustundar langur könnunarleiðangur um hringiðu þeirra hluta sem skipta okkur öll máli og við getum – hvert með sínum hætti og hvenær sem er – haft áhrif á með athöfnum okkar. Þátttakendur skapa aðstæður sem byggja á hugrekki og ímyndunarafli, en markmiðið er að hver og einn stigi út úr eigin þægindahring og tefli fram annarskonar og óvenjulegri útgáfu af sjálfum sér; „leiki eins og maður sé orðinn algjörlega frjáls“ – svo notuð séu orð Davids Graeber.

Við lifum á tímum þar sem vandamálin virðast mörg hver nánast óyfirstíganleg, en það er eins og við séum pikkföst á sama stað. Hvers vegna gerum við ekki eitthvað? Við vitum að listin getur hreyft við  okkur, þess vegna er þessi vinnustofa sérleg tilraun til þess að kynna aðferðir sem allir geta nýtt sér, aðferðir sem taka mið af hinum ýmsu greinum, búa til eyðu í hvunndaginn, eða einskonar meðvitaða sviga utan um það spurningamerki sem hver og einn ætti að setja við venjubundna hegðun sína. Í þessu tilfelli stendur enginn hrífandi leiðtogi í vegi fyrir þátttakendum; hver og einn styðst við hinar ýmsu leið- og vísbendingar sem fyrirfinnast í einni lítilli ferðatösku – og svo auðvitað eigið hyggjuvit. The THING er þó ekki endilega tilefni til þess að gera allt sem þig langar að gera áður en það verður um seinan, hér er fyrst og fremst um að ræða vettvang fyrir þátttakendur sem vilja greina og magna upp getu sína með það að markmiði að verða raunverulegir gerendur í samfélaginu.

------

Ant Hampton hefur frá árinu 1998 unnið að ýmsum ólíkum verkefnum undir merkjum þess sem hann kallar „autoteatro“ og er lýsing á samspilinu milli lifandi lista og sjálfvirkni. Verkin hafa iðulega byggst á einhverskonar leiðarvísum sem fólk hefur fylgt í gegnum óæfða gjörninga. Ant Hampton hefur unnið að slíkum verkum í félagi við listamenn á borð við Glen Neath, Joji KoyamaIsambard Khroustaliov (Sam Britton), Tim EtchellsGert-Jan StamBritt Hatzius og Christophe Meierhans. Á síðastliðnum árum hafa verk Autoteatro verið þýdd yfir á meira en 60 tungumál. Ant var aðaldramatúrg 'Projected Scenarios' á tvíæringnum Manifesta7 og hefur komið að verkum annarra listamanna. Þeirra á meðal eru Ivana Müller, Anna Rispoli, Jerome Bel og Forced Entertainment. Ant hefur einnig unnið sem mentor hinna ýmsu listamanna í tengslum við vinnsumiðjur eins og MAKE (Írlandi), A-PASSSound Image Culture (Belgíu) og DasArts (Hollandi) þar sem þau Edit Kaldor stóðu fyrir 10 vikna námskeiði sem kallaðist  ‘Every Nerve’. Hann hefur leitt vinnustofur um allan heim, t.a.m. 'Fantasy Interventions - Writing for Site-Specific Performance', og ‘Raising Voice in Public Space’ ásamt Edit Kaldor.

Christophe Meierhans er fæddur í Sviss árið 1977, hann hóf feril sinn sem tónskáld en starfar nú þvert á hinar ýmsu listgreinar. Meðal verka hans má nefna “Some use for your broken clay pots “(Kaaiteater 2014) þar sem hann kynnti nýstárlegar lýðræðishugmyndir og “Verein zur Aufhebung des Notwendigen – A hundred wars to world peace” (2015) sem var einskonar anarkískt matreiðslunámskeið. Christophe gerir tilraunir með þátttöku fólks og pólitískar hliðar hvunndagslegra atvika. Christophe Meierhans er sérlegur listamaður Kaai leikhússins í Brüssel.

Frekari upplýsingar: www.contrepied.de